04 September 2007

Rifrildi í búðinni

Ég fór í ávaxta-og grænmetisbúð áðan, svona búð sem er ekki meira en 20 fermetra stór og selur bara ávexti og grænmeti, allar hugsanlegar tegundir, og jurtir líka.
Þessi tiltekna búð er rekin af manni af erlendu bergi brotnu. Líklega er hann indverji eða pakistani en ég er ekki viss. Ég er heldur ekki viss um trúarlega afstöðu hans.
Þar inni í búðinni voru aðrir viðskiptavinir en ég, hjón með börnin sín tvö í kerru. Þau voru greinilega múslimar því konan var með sjal yfir hárinu og soleiðis (þið vitið)en ég veit ekki hvers þjóðar þau voru en þau töluðu fína ensku og hafa greinilega búið hér lengi.
Viðskiptavinurinn spyr kaupmanninn:"hvað heitir þessi melóna" og kaupmaðurinn segir:"hvað, kanntu ekki að lesa maður, þetta er cantilópa". Viðskiptavinurinn er rólegur og segir:"nei ég held að þetta sé öðruvísi melóna, en ég er ekki viss." Kaupmaðurinn segir:"Nei þetta er cantilópa, sérðu það ekki". Og eftir að hafa verið orðlaus yfir orðum kaupmannsins, áttar Viðskiptavinurinn sig á því að það er verið að svífvirða hann og tekur til sinna mála. Hann er áfram rólegur og spyr kaupmanninn af hverju hann sé svona dónalegur og kaupmaðurinn segist ekki vera það. Kaupmaðurinn byrjar að æsa sig og upphefst mikið rifrildi. Kona viðskiptavinarins blandar sér inn í málið og á endanum neitar kaupmaðurinn að afgreiða hjónin og snýr sér að mér og segir næsti. Ég stari á hann og aftur á hjónin og svo aftur á kaupmanninn og segi:"Nei takk ég versla ekki hér" legg frá mér körfuna og geng út. Kaupmaðurinn segir:"Allt í lagi" og rifrildið við hjónin heldur áfram.

Málið er að ég skil ekki af hverju kaupmaðurinn hagaði sér svona. Ætli það hafi verið kynþáttafordómar eða trúarlegir fordómar eða ætli hafi legið bara illa á honum.
Ég var svo hneyksluð og hef bara aldrei upplifað annað eins.
Saklaust fólk að versla í búð og það er nánast því kallað hálfvitar af kaupmanninum.
Ég fór í aðra búð að kaupa mína ávexti og grænmeti og á meðan var ég skjálfandi reið yfir að hafa ekki sagt eitthvað við kaupmanninn. Kannski bara "jú, þú ert dónalegur, hvað ertu að pæla að koma svona fram við viðskiptavini þína" eða eitthvað svoleiðis. En kannski hefði það ekki skipt neinu. Maður breytir ekki manni með einni setningu.
Ég ætla bara í framtíðinni ekki að versla við hann og það má vera hans kenning af minni hálfu.

En annars er allt ágætt að frétta. Arnþór er duglegur að fara í skólan og ég vona að það sé allt að koma þar. Annars hefur verið voða erfitt að vera hörð á því að hann fari í skólan á hverjum degi, þrátt fyrir að hann mótmæli á hverjum morgni.
Snæbjörn er búinn að kynnast stelpu sem hefur sömu áhugamál og hann, Yuh-Gi-Oh og Simpson's. Strákarnir í bekknum hrekkja hann soldið og spurja hvort þau ætli ekki að fara að gifta sig, en ekkert alvarlegt samt.

Ég er búin að panta leikhúsmiða á The Snowman sem verður sýnt í desember. Algjör jólaklassík sem hefur slegið í gegn í leikhúsi. Ég hlakka mikið til.
Ef einhvern langar að koma með get ég pantað miða fyrir ykkur:)

Hér eru líka nokkrar myndir frá fyrstu dögum strákanna hér í Edinburgh


Strákarnir með kastalann í baksýn. Þessi mynd er tekin rétt hjá skólanum mínum fyrir framan mjög langan tröppugang sem liggur niður að Grassmarket.



Hér er einn hópur af götulistamönnum sem skemmtu okkur á festivalinu. Mjög magnað að horfa á þá.




Þetta er skólinn sem strákarnir eru í. Snæbjörn er í stofu á efstu hæðinni. Neðst á myndinni sjáiði í toppinn á grindverki sem er rúmlega 2.metra hátt og lokar af skólalóðina.


Bæ í bili.

2 comments:

Anonymous said...

Gott hjá þér að labba bara út hjá þessum dónalega kaupmanni.

Anonymous said...

Hæ elsku Heiða mín, Berglind sagði mér frá því að þú værir með síðu. Mér finnst endalaust leiðinlegt að hafa svo ekki náð að hitta á þig í sumar, en það einhvernvegin flaug framhjá mér. Verður gaman að fá að fylgjast með þér hér á blogginu, gangi ykkur vel, ég er með msn endilega addaðu mér :) eddaeinars@hotmail.com