21 September 2007

Rykugt heimili

Sæl og blessuð öll sömul

Það var voða gaman hjá okkur í dag.

Eftir skóla fórum við í ævintýraferð í Curry's sem er raftækjaverslun eins og Elco eða eitthvað álíka. Við tókum strætó þvert yfir bæinn og þurftum svo að labba nokkurn spöl í gegnum voða krúttlegt hverfi hér í norðvestur hlutanum. Þar voru svona lítil hús með sætum litlum görðum og útstandandi Vicktoríutímabilsgluggum eins og svo algengt er hér. Við vorum ekki alveg viss hvernig við ættum að komast útúr hverfinu svo við spurðum lítinn, gamlan mann sem var að klippa litla runnan sinn í litla garðinum sínum, hvert við ættum að fara og hann benti okkur á að fara efst upp á litlu hæðina og niður litlu botnlangagötuna og þaðan niður mjóar, litlar tröppur, í kringum litla bílskúra og út á stóru aðalgötuna.
Á endanum náðum við í búðina sem við ætluðum í og ég var ákveðin í því hvað ég ætlaði að kaupa, því ég var búin að skoða netsíðu búðarinnar í morgun.
Ég ætlaði að kaupa BOSCH ryksugu, því sú sem fylgir íbúðinni er ekki í lagi og hefur ekki verið það síðan ég flutti inn, og Hewlit Packart 3 in 1 prentara(þessa sem eru með prentara, skanna og ljósritunarvél allt í einu tæki), svo ég geti fullkomnað skrifstofuna mína sem er komin upp hér í 10/9 Sienna Gardens.

Hvorugt var til "in stock".

Svo ég stóð þarna í miðri búð og glápti á a.m.k. 50 ryksugur og alveg að fá valkvíðakast dauðans þegar rauðhærður, freknóttur og ég sver það hann var með kryppu hann var svo hokinn, lítill, ungur maður kom mér til hjálpar og sagði mér hver munurinn væri á nokkrum ryksugunum sem endaði með því að ég valdi PHILIPS vél sem er alveg SÚPER!!! Ekki með neinum ryksugupoka og kraftmikil og flott.

Svo kom að því að velja prentaratryllitækið og ungi maðurinn hjálpaði mér líka með það.

Svo tókum við TAXA heim og settum allt saman. Strákunum fannst mest spennandi að leika sér með kassana utan af þessu öllu, svo ég fór að leika mér með nýju ryksuguna mína.

Ég ryksugaði ganginn og hálfa stofuna og þá þurfti ég að henda kuskinu úr sugunni. Mér hefði aldrei á ævi minni dottið í hug að það gæti verið svona mikið ryk á jafn litlu svæði!!!! Þetta var hreinn viðbjóður. Það var eins og það hefði ekki verið ryksugað hér í áraraðir. Það er ekki nema von að maður er alltaf stíflaður í nefinu. Ég þarf núna að ryksuga á hverjum degi í nokkra daga bara til að ná niður heilbrigðisvottuðu rykhlutfalli í teppinu hér og það er það sem ég mun gera.

Svo sóttum við okkur pizzu til múslimana sem reka ítalska staðin hér rétt hjá. Snæbjörn náði svo að skanna inn nokkur Yu-Gi-Oh! spil áður en hann ýtti á einhvern takka og allf fór í f*** og ég eyddi restinni af kvöldinu í að laga það. Ekki svo skemmtilegur endir á annars alveg mjög góðum degi.

En ég náði að laga þetta allt svo nú er allt í lagi og dagurinn á morgun verður örugglega skemmtilegur og kvöldið líka. Fótbolti um morguninn og svo ætlum við að kíkja, bara fyrir forviti sakir, í einkaskóla fyrir börn, sem er við hliðina á skólanum mínum. Hann heitir George Herriot's school og önnin kostar um 900 þús. ISK á hvert barn. Ég gæti trúað að J.K. Rowling hafi notað hann sem nokkurskonar fyrirmyndarskóla að Hogwarts.

Þetta er mynd af honum að næturlagi.....

.... og eins og sjá má er þetta svaka kastali og hann er líka með svaka garði í kringum (eitthvað sem almenningsskólar hafa ekki hér á bæ).
Ætli við kíkjum svo ekki í sjoppu og kaupum smá nammi fyrir kvöldið en það er aldrei að vita hvort við höfum bara ávaxtakvöld í staðinn. Það var svo gaman hjá okkur í einu kvöldkaffinu um daginn. Þá vorum við að smakka nýja og framandi ávexti. Við fengum okkur passoa, ferskar fíkjur og kaktusávöxt. Þeim fannst það svo gaman að prófa eitthvað nýtt að þeir vilja ólmir endurtaka svona tilraunakvöld og kannski höfum við svoleiðis á morgun.
Hver veit.
Endilega kíkið á fleiri myndir á linknum hér til hliðar þar sem stendur Margar myndir hér

1 comment:

Anonymous said...

Hæhæ, móðir sagði mér frá þessari síðu þinni svo ég ákvað að kíkja í bæinn. Skemmtilgt að heyra frá ykkur í skotlandi, skemmtilegar myndir og alles...^^ ééén, já! sjáumst bara, vonadni komum við í heimsókn einkverntímann...www.muskat.central.is ...og einsgott fyrir þig að setja mig í vinir og vandamenn, GÓÐA! :P ;* sí jú..kv.Sigrún frænka:)